Englandsmeistarar Manchester City töpuðu fyrir Borussia Dortmund, 0-1, í fyrsta leik sínum á undirbúningstímabilinu í nótt. 

Leikurinn fór fram í Chicago en hann er hluti af International Champions Cup, móti sem flest sterkustu lið Evrópu taka þátt í.

Mario Götze skoraði eina mark leiksins í nótt úr vítaspyrnu á 28. mínútu.

Riyad Mahrez, dýrasti leikmaður í sögu City, lék sinn fyrsta leik fyrir félagið í nótt. Þá lék markvörðurinn Joe Hart seinni hálfleikinn en hann lék síðast fyrir City fyrir tæpum tveimur árum.

Fjölmarga fastamenn vantaði í lið Englandsmeistaranna en þeir áttu marga leikmenn sem komust langt á HM í Rússlandi.