UEFA dæmdi í dag Manchester City í tveggja ára bann fyrir brot á reglum um fjárhagslega háttvísi (e. financial fair play). City segist ætla að áfrýja úrskurðinum.

City fær að taka þátt í útsláttarkeppninni þetta árið en tekur út bannið næstu tvær leiktíðir. Þá þarf City að borga þrjátíu milljónir evra.

Þetta er í þriðja árið í röð sem evrópska knattspyrnusambandið rannsakar hvort að Manchester City hafi brotið reglurnar.

Pep Guardiola fær því eitt tækifæri til viðbótar að færa Manchester City fyrsta Evróputitil félagsins í vor en í vegi City stendur Real Madrid í sextán liða úrslitunum.

Enska félagið var sakað um að hafa falsað ársskýrslur til að standast kröfur UEFA. Falsaði City tölur um greiðslur frá styrktaraðilum til að rétta af ársreikninginn.

City sendi frá sér tilkynningu í kvöld þar sem fram kom að ákvörðunin komi ekki á óvart en sé þrátt fyrir það vonbrigði. Þá mun City áfrýja til Alþjóða íþróttadómstólsins í Sviss.

Það er því háð úrskurði dómstólsins hvort að Manchester City komist í Meistaradeild Evrópu fyrr eða hvort að City verði ekki í Evrópukeppni fyrr en árið 2023.