Enska úrvalsdeildin hefur ákært Manchester City í yfir 100 liðum og sakar félagið um að brjóta reglur um fjármál félaga.

Rannsókn hefur staðið yfir í fjögur ár en ákærurnar voru birtar í dag. Í yfirlýsingu segir að meint brot hafi átt sér stað frá 2009 til ársins 2018.

„Félagið er grunað um að hafa ekki skilað af sér réttum upplýsingum þegar kemur að tekjum, tengdum aðilum og kostnaði," segir í yfirlýsingu deildarinnar.

Á þessum tíma varð City meðal annars enskur meistari í þrígang. Möguleiki er á því að félaginu verði refsað með því að stig verði tekin af því.

City er sakað um að hafa farið frjálslega með sannleikann þegar kemur að styrkarsamningum og samningum við leikmenn.

Árið 2020 dæmdi UEFA enska félagið í bann frá Meistaradeildinni fyrir brot á svipuðum reglum, þeim dómi var áfrýjað og látinn niður falla.

City fær tíma til að andmæla þessum ákærum og svara fyrir meint brot sín.