Hlauparinn Joshua Cheptegei frá Úganda, 23 ára, sló í gær heimsmet í fimm þúsund metra hlaupi í Demantadeildinni í frjálsum íþróttum í Mónakó. Fyrra metið, sem Kenenisa Bekele frá Eþíóp­íu setti, hafði staðið í sextán ár.

Hljóp hann á 12 mínútum og 25,36 sekúndum og sló fyrra metið um tæpar tvær sekúndur.

Tvö ár eru liðin frá því að Cheptegei setti heimsmet í 15 þúsund metra hlaupi og varð hann einnig heimsmeistari í fyrra í 10 þúsund metra hlaupi.

Heimsmeistarinn Cheptegei.
Fréttablaðið/Getty images

Norðmaðurinn Jakob Ingebrigtsen, 19 ára, setti einnig Evrópumet í 1500 metra hlaupi sama dag á rosalegum tíma þegar hann hljóp á þremur mínútum og 28,68 sekúndum.

Ingebrigtsen er einn af þremur hlaupabræðrum en þeir hafa allir orðið Evrópumeistarar í hlaupi.

Jakob Ingebrigtsen.
Fréttablaðið/Getty images