Stjórn enska knatt­spyrnu­fé­lagsins Chelsea undir­býr sig nú undir að draga til baka aðild sína að Ofur­deildinni svo­kölluðu. Þá gildir hið sama um stjórn Manchester City, samkvæmt breska götublaðinu The Sun.

Eins og fram hefur komið eru félögin tvö af sex enskum knatt­spyrnu­liðum sem er stofn­aðili að hinni nýju deild. Chelsea á leik við Brighton í kvöld. Leiknum var seinkað um korter vegna mikilla mótmæla stuðningsmanna fyrir utan Stamford Bridge, leikvang liðsins sem beindust að áformunum.

Mikil and­staða hefur verið við hug­myndina og segja breskir miðlar frá því að fleiri ensk lið sem upp­haf­lega ætluðu sér að vera með í­hugi nú að hætta við. Félögin sem um ræðir eru Arsenal, Manchester United, Totten­ham og Liver­pool.