Enska úrvalsdeildarfélagið Chelsea er reiðubúið að kaupa Frenkie De Jong og Pierre-Emerick Aubameyang frá Barcelona sé spænska félagið tilbúið að láta þá fara í félagsskiptaglugganum. Barcelona er í bullandi vandræðum og þarf að losa um leikmenn til þess að geta skráð nýja leikmenn sína.

Sky Sports greinir frá því í dag að Chelsea sé reiðubúið til þess að jafna tilboð Manchester United í De Jong sem hljóðar upp á 72 milljónir punda og hefur verið samþykkt af forráðamönnum Barcelona. Leikmaður sjálfur vill helst vera áfram hjá Barcelona en hjá Chelsea eru menn vongóðir um að ná að landa leikmanninum.

Þá hefur félagið hug á að fá framherjann Pierre-Emerick Aubameyang einnig til liðs við sig. Aubameyang gekk til liðs við Barcelona á frjálsri sölu í janúar fyrr á þessu ári en hefur færst aftar í goggunarröðina á Nývangi eftir komu Robert Lewandowski. Aubameyang þekkir vel til Thomasar Tuchel, knattspyrnustjóra Chelsea eftir tíma þeirra saman hjá Dortmund í Þýskalandi.