Chelsea staðfesti í dag að ákveðið hefði verið að rifta samningi Frank Lampard við félagið, innan við tveimur árum frá ráðningu hans. Thomas Tuchel er talinn vera næsti þjálfari félagsins.

Í yfirlýsingu á heimasíðu Chelsea var Lampard sem er í goðsagnartölu hjá félaginu þakkað fyrir störf sín sem þjálfari liðsins.

Undanfarnar vikur hafa reynst Lampard og Chelsea erfiðlega en Chelsea hefur fatast flugið í deildarkeppninni og er um miðja deild eftir að Lampard fékk óútfyllt tékkahefti til að styrkja liðið í sumar.

Nýjustu leikmenn liðsins hafa engan vegin náð takti og var því ákveðið að leysa Lampard frá störfum.

Talið er næsta víst að Tuchel taki við liðinu af Lampard en Tuchel er án starfs eftir að hafa verið sagt upp af PSG fyrr á árinu.

Þjóðverjinn hefur áður stýrt PSG, Dortmund og Mainz en hann hefur lengi verið á óskalista Chelsea.