Meistaradeildin

Chelsea-mönnum líður jafnan vel á Nývangi

Chelsea og Barcelona mætast á Nývangi í seinni leik liðanna í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í kvöld. Chelsea er taplaust í síðustu fjórum heimsóknum sínum til Barcelona.

Willian var besti leikmaður Chelsea í fyrri leiknum gegn Barcelona. Fréttablaðið/Getty

Það kemur í ljós í kvöld hvaða lið tryggja sér tvo síðustu farseðlana í 8-liða úrslit Meistaradeildar Evrópu. Á Vodafone Park í Istanbúl mætast Besiktas og Bayern München. Þýsku meistararnir standa afar vel að vígi enda unnu þeir fyrri leikinn 5-0. Leikurinn í kvöld ætti því að vera formsatriði fyrir Bayern sem hefur gengið allt í haginn eftir að gamla brýnið Jupp Heyncks tók við liðinu.

Það er öllu meiri spenna fyrir hinum leik kvöldsins, milli Barcelona og Chelsea. Liðin gerðu 1-1 jafntefli í fyrri leiknum á Stamford Bridge og Börsungum dugir því markalaust jafntefli í leiknum í kvöld til að komast áfram.

Chelsea spilaði vel í fyrri leiknum með Willian sem besta mann. Brasilíumaðurinn skaut í báðar stangirnar í fyrri hálfleik áður en hann skoraði með góðu skoti á 62. mínútu. Þegar stundarfjórðungur var til leiksloka nýtti Lionel Messi sér mistök í vörn Chelsea og jafnaði metin. Þetta var hans fyrsta mark gegn Chelsea, í níunda leiknum gegn enska liðinu.

„Það koma tímar þar sem við þurfum að þjást en við þurfum að vera þéttir fyrir. Þegar við höfum boltann þurfum við að trúa því að við getum skorað,“ sagði Antonio Conte, knattspyrnustjóri Chelsea, á blaðamannafundi í gær.

Chelsea hefur gengið ágætlega á Nývangi í Meistaradeildinni og er taplaust í síðustu fjórum heimsóknum sínum þangað. Síðast þegar Chelsea sótti Barcelona heim gerðu liðin 2-2 jafntefli. Það var í seinni leiknum í undanúrslitum Meistaradeildarinnar 2012 og jafnteflið dugði Chelsea til að komast í úrslitaleikinn sem liðið vann svo.

Barcelona hefur komist í 8-liða úrslit Meistaradeildarinnar 10 ár í röð. Síðast féllu Börsungar úr leik í 16-liða úrslitunum 2007, gegn Liverpool. Barcelona hefur hins vegar ekki komist áfram úr 8-liða úrslitunum síðan 2015.

Ernesto Velvarde, stjóri Barcelona, segir að sínir menn verði að hafa góðar gætur á áðurnefndum Willian í leiknum í kvöld.

„Hann skorar að vild. Við þurfum að gæta hans vel því hann hefur verið á skotskónum að undanförnu og ekki spilað betur á tímabilinu,“ sagði Velvarde.

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing

Tengdar fréttir

Meistaradeildin

Héldu vöku fyrir leikmönnum Juventus í nótt

Meistaradeildin

Klopp vongóður um að Firmino spili

Fótbolti

Veislan hefst á nýjan leik í kvöld

Auglýsing

Nýjast

„Ekki í boði að spila neinn skítaleik“

Misjafnt gengi Manchester-liðanna

Arnór: „Dreymt um þetta síðan maður var krakki“

Arnór skoraði og lagði upp gegn Real Madrid

KSÍ setur fleiri ársmiða í sölu

Þriðji stórsigur Noregs í röð

Auglýsing