Chelsea skaust upp í annað sæti ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu karla með 2-0 sigri sínum á móti Crystal Palace í leik liðanna í 12. umferð deildarinnar á Stamford Bridge í hádeginu í dag.

Tammy Abraham skoraði fyrra marka Chelsea í leiknum í upphafi síðari hálfleik en hann er þar af leiðandi jafn Jamie Vardy sem markahæsti leikmaður deildarinnar með 10 mörk.

Það var svo Christian Pulisic sem innsiglaði sigur Chelsea með fimmta deildarmarki sínu á leiktíðinni um miðbik seinni háfleiks. Sömu leikmenn tryggðu Chelsea sigurinn í síðasta deildarleik liðsins á móti Watford.

Eftir rólega byrjun hefur Pulisic látið til sín taka hjá Chelsea-liðinu sem komst upp í annað sæti deildarinnar með 26 stig með þessum sigri. Leicester City getur jafnað Chelsea að stigum með sigri í leik sínum gegn Arsenal síðdegis í dag.

Manchester City getur svo endurheimt annað sætið þegar liðið sækir Liverpool heim í toppslag deildarinnar á morgun.