Chelsea var í dag sett í bann frá félagsskiptum næstu tvo leikmannaglugga af FIFA eftir að hafa brotið reglur um kaup á leikmönnum undir átján ára aldri.

Þetta er staðfest á heimasíðu Alþjóðaknattspyrnusambandsins, FIFA, í dag.

Samkvæmt úrskurðinum komst FIFA að því að Chelsea hefði brotið reglur sambandsins um kaup á leikmönnum undir átján ára aldri að minnsta kosti 29. sinnum ásamt því að brjóta reglurnar þegar kom að skráningu þeirra.

FIFA greindi einnig frá því að Chelsea hefði nýtt sér stöðu sína til að hafa áhrif á tvo unga leikmenn hjá öðrum félögum.

Aganefnd FIFA komst að því að dæma Chelsea í bann frá félagsskiptum næstu tvo leikmannaglugga fyrir aðalliðið og unglingaliðið en kvennalið Chelsea og futsal-lið félagsins má áfram stunda félagsskipti.

Leikmönnum verður heimilt að fara frá félaginu og leikmönnum sem þegar hafa samið við félagið líkt og Christian Pulisic fá að ganga til liðs við félagið en Chelsea er óheimilt að kaupa nýja leikmenn fyrr en sumarið 2020.

Þá var félagið sektað um 600.000 svissneska franka og enska knattspyrnusambandið um 510.000 franka fyrir þátt sinn í málinu við ólögmæta skráningu.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem FIFA grípur til þessa aðgerða en Barcelona var á sínum tíma dæmt í 14 mánaða félagsskiptabann fyrir sömu sakir. Börsungar reyndu margoft að áfrýja en ákvörðun FIFA stóð.