Chelsea hefur gert fimm ára samning við senegalska landsliðsmarkmanninn Edouard Mendy en hann kemur til enska knattspyrnufélagsins frá franska félaginu Rennes. Kaupverðið er 22 milljónir punda.

Þessi 28 ára gamli markmaður er sjöundu kaup Chelsea í sumar og haust en áður höfðu Hakim Ziyech, Timo Werner, Ben Chilwell, Thiago Silva, Malang Sarr og Kai Havertz gengið til liðs við félagið.

Mendy er ætlað að veita Kepa Arrizabalaga samkeppni um markmannsstöðuna hjá Chelsea en Kepa hefur verið harðlega gagnrýdnur fyrir frammistöðu sína hjá liðinu. Willy Caballero er einnig í markmannsteymi liðsins.

Á síðustu leiktíð hélt Mendy marki sínu hreinu níu sinnum í frönsku efstu deildinni en liðið hafnaði í þriðja sæti deildarinnar. Mendy er að fylgja í fótspor Petr Cech, sem nú er yfirmaður knattspyrnumála hjá Chelsea, en hann kom til Lundúnarfélagsins frá Rennes árið 2004.