Chelsea varð í kvöld fyrsta liðið til að sigra Manchester City á þessu tímabili í ensku úrvalsdeildinni þegar Chelsea vann 2-0 sigur á heimavelli sínum.

Það þýðir að Liverpool er eina ósigraða liðið í deildarkeppninni og situr í efsta sæti deildarinnar með eins stigs forskot á Manchester City.

Manchester City var meira með boltann og ógnandi í fyrri hálfleik en það var N'Golo Kante sem braut ísinn fyrir heimamann eftir góðan undirbúning Eden Hazard.

David Luiz bætti við marki á 78. mínútu eftir hornspyrnu Hazard en við endursýningu virtist Chelsea ekki hafa átt að fá hornspyrnuna.

Með sigrinum fór Chelsea upp fyrir nágrannalið sín Tottenham og Arsenal upp í þriðja sæti en Tottenham á leik til góða gegn Leicester í kvöld.