Þegar Kylian Mbappe var aðeins þrettán ára gamall fór hann á reynslu hjá enska stórveldinu Chelsea en enska félagið vildi ekki bjóða honum samning án þess að fá að sjá hann betur á annarri æfingu.

Hinn 19 ára gamli Mbappe sló í gegn með Monaco aðeins átján ára gamall og varð stuttu síðar einn af dýrustu leikmönnum heims þegar PSG keypti hann.

Var Mbappe besti leikmaður Frakklands á HM í sumar og þykir vera einn besti sóknarmaður heims þrátt fyrir að vera ekki orðinn tvítugur.

Fyrrum njósnari Chelsea, Serge Daniel Boga, fékk hann til félagsins á reynslu þar sem hann hitti leikmenn á borð við Didier Drogba og Florent Malouda. 

Þótti hann standa sig vel en félagið vildi skoða hann nánar en móðir hans ítrekaði að þetta væri tækifæri Chelsea á að semja við son sinn.

Þótti forráðamönnum Chelsea greinilegt að drengurinn var efnilegur sóknarmaður en óttuðust að hann væri ekki nægilega duglegur að vinna varnarvinnu og varð það félaginu að falli.