Alex Oxlade-Chamberlain skrifaði í gær undir nýjan langtíma samning við Liverpool tveimur árum eftir að hann gekk til liðs við félagið frá Arsenal.

Chamberlain er búinn að byrja síðustu tvo leiki Liverpool og lék stærstan hluta leiksins í 2-1 sigri á Dýrlingunum á dögunum eftir að hafa misst af stærstum hluta síðasta tímabils.

Sautján mánuðir eru síðan hann meiddist afar illa á hné í leik Liverpool og Roma þar sem þrjú af fjórum liðböndunum í hnénu slitnuðu.

Var óvíst hvenær hann kæmist aftur inn á völlinn en Chamberlain lék fyrstu mínútur sínar eftir meiðslin síðasta vor og er hægt og bítandi að byggja upp fyrri styrk.

Alls hefur miðjumaðurinn sem er oft kallaður Uxinn leikið 47 leiki fyrir Liverpool og skorað í þeim fimm mörk.