Leikir Boston Celtics verða ekki lengur sýnilegir í Kína eftir að tyrkneski miðherji liðsins, Enes Kanter lýsti yfir stuðningi við Tíbet í myndbandi á samskiptamiðlum sínum og klæddist skóm með slagorðinu Frelsið Tíbet.

Utanríkisráðherra Kína, Wang Wenbin, taldi þetta vera athyglissýki hjá Kanter og ekki þess virði að eyða tíma í.

Það er því ekki lengur hægt að nálgast fyrrum leiki né leiki Boston í framtíðinni hjá streymisveitunni TenCent sem er rétthafi NBA-deildarinnar í Kína.

Boston er annað liðið sem lendir á bannlistanum í Kína en það er ekki hægt að sjá leiki Philadelphia 76ers vegna ummæla Daryl Morey, framkvæmdarstjóra liðsins, um sjálfstæðisbaráttuna í Hong Kong.

Kanter er um leið eftirlýstur af stjórnvöldum í Tyrklandi vegna mótspyrnu sinnar gegn forsetanum Tayyip Erdogan.

Miðherjinn var gerður útlægur árið 2018 á grundvelli þess að hann væri hluti af hryðjuverkahópi og hafa tyrknesk stjórnvöld farið fram á að hann verði framseldur til Tyrklands.