Albert Celades og Fernando Hierro munu stýra liði Spánar gegn Portúgal eftir að Julen Lopetegui var sagt upp störfum fyrr í dag, aðeins tveimur sólarhringum fyrir fyrsta leik liðsins.

Lopetegui tók við liði Real Madrid á dögunum en það vakti mikla athygli að þetta væri tilkynnt svona þremur dögum fyrir mót. Var allt í upplausn í spænsku æfingarbúðunum í dag sem endaði með að þjálfarinn var rekinn.

Celades og Hierro voru báðir með spænska landsliðshópnum og munu þeir stýra liðinu gegn Portúgal á föstudaginn. Báðir tveir léku á sínum tíma fyrir spænska landsliðið.

Er Celades þjálfari U21 árs liðs Spánar en Hierro sem er goðsögn hjá Real Madrid starfar fyrir spænska knattspyrnusambandið. 

Eru Spánverjar ekki búnir að tapa leik í tvö ár undir stjórn Lopetegui en það verður fróðlegt að sjá hvernig liðinu tekst að bregðast við þessu mótlæti svona rétt fyrir mót.