Markvörðurinn Cecilía Rán Rúnarsdóttir skrifaði í dag undir sex mánaða lánssamning við þýsku meistarana í FC Bayern. Hún verður þriðji Íslendingurinn í herbúðum þýska stórveldisins.

Mosfellingurinn Cecilía sem verður nítján ára í sumar kemur til Bayern frá Everton en hún lék með Örebro í Svíþjóð á síðasta ári.

Markmaður Bayern og þýska landsliðsins, Laura Benkarth er meidd og nýtti Bayern því tækifærið til að fá Cecilíu á láni frá enska félaginu.

Hjá Bayern eru kunnuleg andlit fyrir Cecilíu sem mun æfa með Glódísi Perlu Viggósdóttur og Karólínu Leu Vilhjálmsdóttur.

Hún varð árið 2020 yngsti markmaðurinn í sögu landsliða Íslands þegar hún lék fyrsta A-landsleik sinn sextán ára, sjö mánaða og sjö daga gömul.