Edinson Cavani verður fjarri góðu gamni vegna meiðsla þegar Paris Saint-Germain sækir Manchester United heim í fyrri leik liðanna í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu annað kvöld.

Cavani fór meiddur af velli í 1-0 sigri PSG á Bordeaux á laugardaginn. Úrúgvæinn skoraði eina mark leiksins úr vítaspyrnu.

PSG verður einnig án Neymar í leiknum á Old Trafford á morgun. Mikið mun því mæða á franska heimsmeistaranum Kylian Mbappé í framlínu frönsku meistaranna.

PSG er með tíu stiga forskot á toppi frönsku úrvalsdeildarinnar og á auk þess tvo leiki til góða á Lille, liðið í 2. sæti. Liðið hefur aðeins tapað einum deildarleik í vetur.

Leikur United og PSG hefst klukkan 20:00 á morgun. Seinni leikur liðanna fer fram á Parc des Princes 6. mars.