Iker Casillas og Mohamed Salah komu Loris Karius, markmanni Liverpool, til varnar eftir að slæm mistök hans kostuðu Liverpool mark í 1-3 tapi gegn Dortmund í æfingarleik í gær.

Karius hefur verið mikið í sviðsljósinu eftir að hroðaleg mistök hans kostuðu Liverpool leikinn í 1-3 tapi gegn Real Madrid í úrslitum Meistaradeildar Evrópu í vor. Kom seinna í ljós að hann hefði hlotið heilahristing en hann virðist skorta allt sjálfstraust þessa dagana.

Slæm mistök hans í leik gegn Tranmere vöktu töluverða athygli og virtust stuðningsmenn Liverpool hafa fengið nóg af þýska markverðinum eftir mistökin í kvöld.

Hinn goðsagnarkenndi Casillas kom Karius til varnar í leikslok og tók Mohamed Salah einnig upp hanskann fyrir liðsfélaga sinn.

„Mun fólk aldrei hætta að ráðast á Loris Karius? Það eru mun fleiri alvarleg mál í heiminum andskotinn hafi það. Látið drenginn vera, hann er persóna eins og við öll sömul,“ sagði Casillas en Salah tók í sama streng á Twitter.

„Stattu í lappirnar og vertu sterkur Karius. Þetta gerist fyrir bestu leikmenn, hunsaðu þá sem eru hvað verstir.“