Rússneska skautakonan Kamila Valieva er heimilt að keppa á Vetrarólympíuleikunum sem fram fara í Peking í Kína þessa dagana þrátt fyrir að hafa fallið á lyfjaprófi á dögunum.

Alþjóða íþróttadómstóllinn, CAS, úrskurðaði Valievu í vil en rússnska skautakonan er 15 ára gömul og samkvæmt reglum alþjóða lyfjanefndarinnar, WADA, eiga íþróttamenn sem eru yngri en 16 ára gamlir að njóta sérstakrar verndar þegar kemur að úrskurðum vegna lyfjamála.

Í úrskurði CAS kemur fram hörð gagnrýni á alþjóða skautasambandið, alþjóða ólympíunefndina og WADA en þar segir að sú framkvæmd að svipta Valievu keppnisrétti á miðjum Ólympíuleikum vegna brots sem átti sér stað í desember sé ómanneskjulegt og hafi valdið rússneska undrabarninu miklum skaða.

Valieva tók hjartalyfið trimetazidine sem eykur blóðflæði til hjartans fyrir rússneska meistaramótið sem fram fór desember á síðasta ári en úrskurður í málinu kom ekki fyrr en sex vikum síðar, í upphafi febrúarmánuðar.

Sá dráttur á málsmeðferð er ámælisverður að mati CAS sem hefur aflétt banninu. Valieva getur þar af leiðandi keppt í þeim greinum sem hún á eftir að keppa í á leikunum í Peking.