Ralf Ragnick er að taka við sem bráðabirgðastjóri hjá félaginu en hann mun ekki geta stýrt liðinu á sunnudaginn sökum þess að hann er ekki kominn með atvinnuleyfi í Bretlandi. Búist er við því að fyrsti leikur Ragnicks verði gegn Arsenal á Old Trafford þann 2. desember næstkomandi.

Ole Gunnar Solskjær, var á dögunum rekinn úr starfi knattspyrnustjóra hjá Manchester United og Michael Carrick, aðstoðarmaður hans hjá félaginu hefur verið að stýra liðinu nú þangað til að bráðabirgðastjórinn getur tekið við störfum.

Áætlun forráðamanna Manchester United felst í því að ráða inn bráðabirgðastjóra, sem er nú að verða raunin og þá ætlar félagið að ráða framtíðar knattspyrnustjóra félagsins fyrir næsta tímabil.

Carrick stýrði Manchester United til sigurs í leik gegn Villarreal í Meistaradeild Evrópu á þriðjudaginn og með því tryggði liðið sér sæti í 16-liða úrslitum keppninnar.

Samningur Ragnick hjá Manchester United gildir í sex mánuði. Hann mun í kjölfarið færa sig í annað starf á knattspyrnusviði hjá félaginu og verður þar á tveggja ára samning.

Eins og sakir standa núna er Mauricio Pochettino, knattspyrnustjóri Paris Saint-Germain, talinn líklegastur til þess að taka við Mancester United eftir tímabilið. Heimildir Sky Sports herma að hann hafi mikinn áhuga á því að snúa aftur til Englands þar sem hann gerði góða hluti á sínum tíma með Tottenham.