Manchester United greindi frá því í kvöld að Michael Carrick væri hættur störfum hjá félaginu.

Carrick var í þjálfarateymi Ole Gunnar Solskjær hjá aðalliði karlaliðs félagins í fótbolta og tók svo við sem knattspyrnustjóri liðsins þegar Solskjær var látinn taka pokann sinn í lok nóvember.

Árangur Carrick í stjórastólnum er býsna góður, sigur gegn Villareal, sem fleytti Manchester United áfram í 16 liða úrslit Meistaradeildar Evrópu, jafntefli gegn Chelsea og sigur á móti Arsenal í lokaleik sínum á hliðarlínunni.

Þessi fyrrverandi fyrirliði Manchester United kveðst hafa tekið ákvörðun um að stíga til hliðar áður en Ralf Rangnick var fenginn til þess að taka við keflinu af Solskjær.