Jamie Carragher, fyrrum leikmaður Liverpool og núverandi sérfræðingur Sky Sports, skýtur föstum skotum í átt að kollega sínum Gary Neville hjá Sky Sports sem er einnig einn af eigendum enska knattspyrnufélagsins Salford City. Í dag birtist yfirlýsing frá Salford City þess efnis að knattspyrnustjóra félagsins, Gary Bowyer hefði verið sagt upp störfum.

Carragher birti færslu á samfélagsmiðlinum Twitter í dag þar sem að hann deilir yfirlýsingu Salford og segir Gary Neville stuðla að meira atvinnuleysi heldur en forsætisráðherra Bretlands, Boris Johnson.

Salford City er meðal annars í eigu nokkurra af fyrrum leikmönnum Manchester United sem koma úr hinum fræga 92' árgangi félagsins. Uppgangur Salford hefur verið mikill síðan að fyrrum liðsfélagarnir tóku við eignarhaldi félagsins og það er nú í ensku D-deildinni eftir að hafa unnið sig upp úr utandeildinni.

Hins vegar hafa tíð stjóraskipti átt sér stað hjá félaginu og Gary Bowyer, sem tók við liðinu á síðasta ári hefur nú verið rekinn. Þar áður hafði Richie Wellens verið rekinn frá félaginu eftir stutt stopp eftir að hann tók við starfi knattspyrnustjóra félagsins af Graham Alexander sem hafði verið sagt upp.

Alls hafa fimm mismunandi þjálfarateymi starfað hjá Salford City síðan að 92' árgangurinn tók við eignarhaldi félagsins árið 2014 og ljóst að stöðugleiki verður að komast á knattspyrnustjóramál félagsins ef frekari árangur á að nást.