Argentínski framherjinn Emiliano Sala er á leiðinni til Wales í viðræður við Cardiff City um vistaskipti frá Nantes eftir að franska félagið samþykkti tilboð Cardiff í Sala.

Sala sem er liðsfélagi Kolbeins Sigþórssonar yrði þá liðsfélagi Arons Einars Gunnarssonar hjá Cardiff.

Enskir fjölmiðlar fullyrða að kaupverðið á Sala verði hátt í átján milljónir punda sem hefur skorað tólf mörk í frönsku deildinni. Aðeins Kylian Mbappé og Nicolas Pepe hafa skorað fleiri mörk en Sala í deildinni.

Viðræðurnar virtust hafa siglt í strand á dögunum en forseti Nantes staðfesti í samtali við BBC að viðræður hefðu hafist á ný.