„Ég myndi ekki segja að þetta væru mikil vonbrigði, við spiluðum vel á útivelli þegar við áttum ekki von á því að við myndum ná að halda í við Ísland,“ sagði Clint Capela, leikmaður svissneska landsliðsins, aðspurður út í eins stigs tap gegn Íslandi í dag.

Ísland vann Sviss með flautukörfu Martins Hermannssonar og eru því öll liðin jöfn þegar riðlakeppnin er hálfnuð. Lesa má umfjöllun um leikinn hér.

„Ísland mætti af meiri hörku í seinni hálfleik og var að setja niður stór skot á sama tíma og við vorum að tapa boltanum klaufalega. Ísland átti síðasta orðið og setti niður síðasta skotið,“ sagði Clint sem fór fögrum orðum um íslenska liðið.

„Þeir spiluðu mjög vel sem lið, tóku réttar ákvarðanir og það er margt sem við getum lært af þeim sem lið.“

Clint fékk að berjast við Tryggva Snæ Hlinason undir körfunni og hafði Tryggvi oft betur gegn Capela sem er miðherji hjá einu af sterkustu liðum NBA-deildarinnar.

„Hann hentar vel í evrópskan körfubolta og liðsfélagar hans voru að nota hæfileikana hans vel. Hann gerði vel og ég óska honum alls hins besta,“ sagði Clint sem var hissa þegar hann fékk að heyra að Tryggvi hefði byrjað að æfa körfubolta árið 2014.

„Það er magnað. Hann þekkir styrkleika sína vel, heldur boltanum uppi og er erfiður viðureignar undir hringnum.“