Það er að undirlagi markmannsþjálfara Arsenal, Inaki Cana, sem vann með Rúnari Alex Rúnarssyni hjá danska liðinu Nordsjælland, sem íslenski landsliðsmarkvörðurinn komst á radarinn hjá Arsenal. Fullyrt var á vefmiðlinum 433 í gær að Rúnar Alex væri á leið til enska úrvalsdeildarfélagsins í læknisskoðun þar sem honum stæði til boða fimm ára samningur. Enskir fjölmiðlar fullyrða að kaupverðið sé um 1,5 milljónir punda.

Cana og Rúnar þekkjast vel frá tíma sínum saman í Danmörku en Arsenal er einnig að skoða markvörð Brentford, David Raya, sem Cana þekkir vel eftir samstarf þeirra hjá enska B-deildar liðinu.

Rúnar Alex sem er á mála hjá franska liðinu Dijon var sagður á leið til Lundúna í gær þar sem hann átti að undirgangast læknisskoðun. Hann á að fylla skarð Emiliano Martinez sem er á leið til Aston Villa fyrir 20 milljónir punda. Bernd Leno verður áfram fyrsti kostur og þá er félagið með fjölmarga efnilega markverði innan sinna raða. Eistann Karl Hein, Arthur Okonkwo og James Hillson meðal annars.

Rúnar Alex kom til Dijon árið 2018 og hefur spilað 36 leiki fyrir félagið og haldið markinu hreinu sex sinnum. Hann hefur þó ekki átt fast sæti í liðinu. Hann er einn af 160 íþróttamönnum sem hafa skrifað undir samning við góðgerðarfélag Juan Mata, Common Goal, þar sem íþróttamenn láta eitt prósent af laununum í góðgerðarmál.