Sol Campbell og Hermann Hreiðarsson voru á dögunum ráðnir til þess að halda utan um stjórnartaumana hjá enska C-deildarliðinu í knattspyrnu Southend United.

Þeir félagar eru farnir að láta til sín taka hjá félaginu en þeir hafa meðal annars séð til þess að morgunverður leikmanna verði hollari og næringarríkari en áður var.

Þannig hafa þeir farið fram á það við starfsmenn mötuneytis félagsins að ekki verði boðið upp á tómatsósu og majónes þegar morgunverðurinn er borinn fram.

Southend United er í næst neðsta sæti deildarinnar með fimm stig og er átta stigum frá því að komast af fallsvæði. Liðið sækir fyrrverandi félag Campbell og Hermanns, Portsmouth, í næsta leik sínum í deildinni annað kvöld.