Saga Kórdrengja hefur vakið mikla athygli undanfarin ár, liðið hefur farið hratt upp um deildir og átt góð ár í Lengjudeild karla. Davíð Smári Lamude lét af störfum sem þjálfari liðsins síðasta haust og síðan þá hefur liðið ekki komið saman til æfinga og er enn án þjálfara.

Framtíð félagsins hefur verið í lausu lofti en Kórdrengir hafa átt í viðræðum við FH um að þeir taki liðið yfir. Ekki hefur hins vegar verið gengið frá neinu og Davíð Þór Viðarsson, yfirmaður knattspyrnumála hjá FH, hefur ekki svarað í síma undanfarna daga.

Kórdrengir eiga að mæta Breiðabliki í Lengjubikarnum á föstudag en eins og staðan er í dag ríkir gríðarleg óvissa um hvort leikurinn fari fram. Aðeins fjórir leikmenn eru samningsbundnir Kórdrengjum og þarf að hafa hraðar hendur ef á að manna ellefu manna lið eftir tvo daga. Í höfuðstöðvum KSÍ er búist við því að Kórdrengir mæti til leiks. „Ég veit ekki neitt annað en að þeir mæti til leiks,“ segir Birkir Sveinsson, yfirmaður mótamála hjá Knattspyrnusambandi Íslands.

Birkir segist eins og aðrir vita af stöðu félagsins en hefur átt í samskiptum við forráðamenn Kórdrengja undanfarið. „Ég hef heyrt í þeim og þeir hafa tilkynnt þátttöku. Þeir vita af sínum leikjum, ég veit ekki annað en að þeir mæti til leiks gegn Blikum.“

Birkir segist ekki fylgjast með því hvort liðið sé í raun með þjálfara eða leikmenn, það sé ekki á hans borði. „Það er eitthvað sem ég er ekki að fylgjast með, ég hef heyrt í þeim og veit ekki annað en að þeir mæti til leiks á föstudag,“ segir Birkir.