Búið er að opinbera byrjunarlið Íslands fyrir leikinn gegn Tékklandi í undankeppni HM 2023. Það sem vekur hvað mesta athygli er að Guðrún Arnardóttir, miðvörður Rosengard, er í hjarta varnarinnar við hlið Glódísar Perlu Viggósdóttur.

Þetta er annar leikur Íslands í undankeppninni en fyrsta leiknum lauk með 0-2 tapi gegn Hollandi í síðasta mánuði.

Þorsteinn Halldórsson, þjálfari landsliðsins, gerir tvær breytingar frá þeim leik. Guðrún kemur inn fyrir Ingibjörgu Sigurðardóttur en Guðrún leysti Glódísi af hólmi hjá Rosengard þegar Glódís var keypt til Bayern Munchen fyrr á þessu ári.

Þá tekur Karólína Lea Vilhjálmsdóttir sér stöðu inn á miðju íslenska liðsins við hlið Dagnýjar Brynjarsdóttur og Gunnhildar Yrsu Jónsdóttur.

Byrjunarlið Íslands:

Mark: Sandra Sigurðardóttir

Vörn: Guðný Árnadóttir, Guðrún Arnardóttir, Glódís Perla Viggósdóttir, Hallbera Guðný Gísladóttir

Miðja: Dagný Brynjarsdóttir, Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir, Karólína Lea Vilhjálmsdóttir

Sókn: Sveindís Jane Jónsdóttir, Agla María Albertsdóttir, Berglind Björg Þorvaldsdóttir