KSÍ birti rétt í þessu byrjunarlið íslenska karlalandsliðsins fyrir leikinn gegn Rúmeníu og er Birkir Bjarnason með fyrirliðabandið þegar hann jafnar leikjamet karlalandsliðsins.

Þetta er næstsíðasti leikur Íslands í undankeppninni en henni lýkur á sunnudaginn þegar Ísland mætir Norður-Makedóníu í Skopje.

Elías Rafn Ólafsson heldur sæti sínu í markinu og Alfons Sampsted fær traustið í stöðu hægri bakvarðar. Brynjar Ingi Bjarnason og Daníel Leó Grétarsson mynda miðvarðarparið og Ari Freyr Skúlason er í stöðu vinstri bakvarðar.

Þriggja manna miðju skipa þeir Birkir sem er að leika 104. leik sinn fyrir landsliðið, Stefán Teitur Þórðarson og Ísak Bergmann Jóhannsson.

Albert Guðmundsson og Jón Dagur Þorsteinsson eru svo við hlið Sveins Arons Guðjohnsens í fremstu víglínu.