Ísland verður með fimm manna varnarlínu og reynslumikið lið gegn Englendingum á Wembley í lokaleik liðanna í Þjóðadeildinni þetta árið.

Erik Hamrén, fráfarandi þjálfari íslenska karlalandsliðsins, gerir nokkrar breytingar á liðinu frá leiknum gegn Danmörku.

Ögmundur Kristinsson kemur inn í markið í stað Rúnars Alexar Rúnarsson og þá tekur Hjörtur Hermannsson við stöðu Harðar Björgvins Magnússonar í vörn Íslands.

Hirti til aðstoðar eru þeir Kári Árnason og Sverrir Ingi Ingason í miðverðinum og Birkir Már Sævarsson og Ari Freyr Skúlason í bakvarðarstöðunum.

Á miðjunni eru Birkir Bjarnason, Rúnar Már Sigurjónsson og Guðlaugur Victor Pálsson og í fremstu víglínu eru þeir Jón Daði Böðvarsson og Albert Guðmundsson.