Frammi­staða ís­lenska lands­liðsins í hand­bolta í tapi gegn Tékkum í undan­keppni EM er ein­hver sú allra lé­legasta í manna minnum og mögu­leiki á að um­ræðan í kringum liðið á ólgu­tímum sé að ná til leik­mannanna.

Einar Örn Jóns­son, fyrr­verandi at­vinnu- og lands­liðs­maður í hand­bolta og nú­verandi í­þrótta­frétta­maður hjá RÚV, hefur lengi vel fylgst með ís­lenska lands­liðinu. Einar lýsti leik Tékk­lands og Ís­lands á dögunum, leik sem lauk með fimm marka sigri Tékka, 22–17. Leik þar sem frammi­staða ís­lenska lands­liðsins vakti reiði og furðu margra.

„Fyrsta við­bragð hjá mér var eigin­lega bara það að ég snög­greiddist, á meðan ég var að lýsa leiknum. Reiddist yfir því hversu ráða­laust og slakt ís­lenska lands­liðið var í raun og veru. Eftir því sem þetta ráða­leysi hélt á­fram hjá liðinu því lengra sem leið á leikinn, var maður í raun bara sleginn yfir því hvað liðið virtist ekkert geta rifið sig upp úr dalnum sem það var í.

Við erum ekki með lið, því lið verja sig gegn svona á­föllum

Maður getur orðið fúll yfir því að nokkrar sóknir fari for­görðum, að það líði nokkrar mínútur milli marka, en að spila hræði­legan fyrri hálf­leik og taka síðan heilt korter í þeim seinni í að skora eitt mark með til­liti til slæms fyrri hálf­leiks. Það var þá sem ég varð bara fyrir sjokki. Ég bjóst aldrei við því að sjá þetta frá ís­lensku lands­liði og þá kannski síst frá þessu til­tekna ís­lenska lands­liði.“

Þessi frammi­staða hjá liðinu, er hægt að líkja henni við ein­hverja frammi­stöðu á árum áður hjá ís­lenska lands­liðinu? Hefurðu séð svona frammi­stöðu hjá ís­lensku lands­liði áður?

„Nei, ekki í fljótu bragði. Mögu­lega man ein­hver betur en ég og ég myndi kvitta upp á það síðar meir. En með til­liti til and­stæðingsins sem við vorum að mæta, þess sem var í húfi með því að mæta al­menni­lega í leikinn og gæðanna sem búa í þessu liði, þá verð ég að segja að þetta var það lé­legasta sem ég hef nokkurn tímann séð.“

Einar Örn Jónsson, íþróttafréttamaður RÚV og fyrrum atvinnu- og landsliðsmaður í handbolta
Mynd: Skjáskot

Rúnir sjálfs­trausti

Það er nefni­lega tölu­vert mikið í húfi. Ís­lenska lands­liðið er svo gott sem búið að tryggja sig á EM í Þýska­landi á næsta ári en á hættu á að missa af topp­sæti síns riðils. Það sæti veitir sæti í efsta styrk­leika­flokki þegar dregið verður í riðla á loka­mótinu. Með því að vera í efsta styrk­leika­flokki er komist hjá mögu­leikanum á því að geta mætt mörgum af bestu hand­bolta­þjóðum Evrópu í riðla­keppninni.

Ís­lenska lands­liðið getur, með góðum úr­slitum á EM á næsta ári, opnað leið fyrir sig inn á Ólympíu­leikana í París það sama ár. Því skiptir það gríðar­lega miklu máli að ná góðum úr­slitum á EM.

Það var í raun frammi­staða strákanna okkar gegn Tékkum á dögunum sem stingur Einar Örn hvað mest.

„Hvað leik­menn liðsins voru ráða­lausir, hvað sjálfs­traustið var ekkert og náði samt að minnka meðan á leiknum stóð og hvernig þetta fór illa þó að við höfum á endanum bara tapað með fimm mörkum. Þetta liggur allt saman al­farið hjá ís­lenska liðinu, því and­stæðingurinn var ekki góður.

Miðað við hversu mikið var í húfi er bara mjög erfitt að finna út­skýringu á því af hverju liðið er svona rúið sjálfs­trausti, rúið ein­hverjum anda af því að maður sá akkúrat mjög lítið af leik­mönnum bregðast við, reyna að verja sig. Það fauk ekki í einn einasta leik­mann liðsins, maður sá ekki grimmd í augum þeirra í seinni hálf­leik þegar allt var að fara á versta veg. Það svíður eigin­lega mest. Það var ekki fyrr en menn voru endan­lega komnir á botninn sem þeir svöruðu að­eins fyrir sig, það var bara af því að Tékkarnir eru ekki betri en þeir eru.“

Þetta er ekki lið

Liðið, sem hópur, virðist vera á mjög erfiðum stað.

„Það eru til alls konar klisjur um veikasta hlekk keðjunnar og svo fram­vegis en það hefur marg­sýnt sig í í­þrótta­heiminum að fram­úr­skarandi ein­staklingar verða ekki að fram­úr­skarandi liði bara af sjálfu sér. Það þarf að búa til lið, finna réttu blönduna og græja allt það sem þarf að græja svo lið smelli saman. Maður hélt að allt það væri til staðar hjá þessu ís­lenska lands­liði af því að við höfum séð það áður. En svo horfir maður á þennan leik gegn Tékkunum og verður, í fram­haldi af honum, að segja að þetta er ekki lið. Við erum ekki með lið, því lið verja sig gegn svona á­föllum. Lið geta alveg tapað leikjum en þau verja sig gegn svona. Lið stendur saman, berst á­fram í gegnum hlutina, það þekkja allir sín hlut­verk og enginn er brotin skel inni á vellinum.

Maður sá brot af því á HM, að við værum ekki lið, en svo sá maður það að fullu á móti Tékkunum þegar við fórum á há­væran úti­völl gegn al­gjöru miðlungs­liði og stein­liggjum. Það er enginn sem að ber hönd fyrir höfuð sér til að verja liðið gegn þessu á­hlaupi og á­falli.“

Lengi í kast­ljósinu

Ís­lenska lands­liðið hefur nú í lengri tíma, eftir von­brigðin á HM í janúar, verið í kast­ljósinu. Meðal annars vegna starfs­loka Guð­mundar Guð­munds­sonar lands­liðs­þjálfara og sögu­sagna um leka úr lands­liðs­hópnum. Eru leik­menn lands­liðsins að bugast undan þessari um­ræðu?

Guðmundar Guðmundssonar nýtur ekki lengur við í starfi landsliðsþjálfara
Fréttablaðið/Ernir

„Mögu­lega er þetta að ná til þeirra að ein­hverju leyti en ég efast um að þeir séu að bugast undan þessu. Þetta eru sjóaðir at­vinnu­menn, menn sem eru búnir að vinna stóra titla með sínum fé­lags­liðum. Líf at­vinnu­mannsins er enginn dans á rósum, það er enginn að klappa þér á bakið og segja þér hvað þú ert æðis­legur, þannig að ég hugsa að menn séu á­gæt­lega vel brynjaðir fyrir nei­kvæðri um­fjöllun.

En svo er spurning um or­sök og af­leiðingu. Sér fólk eitt­hvað í liðinu sem fyllir það nei­kvæðni eða er nei­kvæðnin að fylla liðið ó­öryggi? Það er von­laust að setja fingur á hvað það er af því já­kvæðnin í kringum liðið eftir EM í fyrra var alveg svaka­leg. Það er rosa­lega mikið af já­kvæðum straumum í kringum þetta lið, en eins og Arsené Wen­ger, fyrr­verandi knatt­spyrnu­stjóri Arsenal, sagði einu sinni um sjálfs­traust: „Þú öðlast það með því að labba upp stiga, en það kemur niður með lyftunni.“

Mögu­lega hefur öll þessi um­ræða á­hrif á liðið en gott lið brynjar sig fyrir svo­leiðis. Gott lið kemst í gegnum svo­leiðis. Ef öll já­kvæð eða nei­kvæð um­ræða, á­hugi og at­hygli hefði alltaf nei­kvæðar af­leiðingar, þá hefðum við aldrei af­rekað neitt. Því við höfum öll sjúk­lega mikinn á­huga á þessu liði, alltaf allir til í að stökkva á vagninn, en ef það hefði alltaf nei­kvæð á­hrif á liðið með pressu og bugun, þá hefðum við aldrei farið í þessa undan­úr­slita- og verð­launa­leiki sem liðið hefur farið í. Góð lið standa bara svo­leiðis af sér og fá eitt­hvað já­kvætt úr því en það virðist verða nei­kvætt fyrir þennan til­tekna hóp lands­liðs­manna.“