Tottenham og Formúla 1 hafa opinberað samstarf sitt og tilkynnt að kappakstursbraut verði lögð undir heimavelli knattspyrnufélagsins. Vonir standa til að þetta vekji upp áhuga á kappakstursíþróttinni hjá fjölbreyttari hópum fólks.

Samstarfið er til fimmtán ára. Rafknúin kappakstursbraut verður lögð undir suðurstúkuna á heimavelli Tottenham.

Tottenham Hotspur Leikvangurinn var tekinn í notkun vorið 2019 en það kostaði einn milljarð punda að byggja hann. Þykir hann einn sá allra flottasti í heimi.

Leikvangurinn tekur rúmlega 60 þúsund manns í sæti. Auk knattspyrnuleikja hefur hann hýst bardaga, NFL-leiki og tónleika, svo eitthvað sé nefnt.

„Síðan við byggðum leikvanginn hefur metnaður okkar alltaf verið að sjá hversu langt við getum gengið í að bjóða upp á heimsklassa-upplifanir fyrir fólk alls staðar að úr heiminum,“ segir Daniel Levy, formaður Tottenham.

Stefano Domenicali, forseti Formúlu 1, segir að með samstarfinu sé vonast eftir að vekja áhuga fjölbreyttari hópa á íþróttinni, þar á meðal á meðal kvenna.

Þá verði einnig boðið upp á ungliða-prógram þar sem reynt verður að koma auga á ökuþóra framtíðarinnar.

Brautin verður tekin í notkun síðar á þessu ári og verður lengsta kappakstursbraut innandyra sem Lundúnir hafa upp á að bjóða.