Enska knattspyrnufélagið Bury sem rekið var úr ensku deildarkeppninni vegna fjárhagsvandræða félagsins gæti komið aftur inn í deildarkeppnina á næsta keppnistímabili.

Það er Skysports sem greinir frá þessu en þar kemur fram að Bury sem var í ensku C-deildinni muni þá hefja leik í D-deildinni á næstu leiktíð.

Bury var nýliði í C-deildinni á yfirstandandi leiktíð eftir að hafa lent í öðru sæti D-deildarinnar síðasta vor. Fjárhagsvandræði, yfirvofandi gjaldþrot og engin skýr eigendastefna varð til þess að ensku deildarsamtökum tóku ákvörðun um að reka félagið úr deildarkeppninni í lok ágústmánuðar.

Þar af leiðandi eru einungis 23 lið í ensku C-deildinnni eins og sakir standa en Bolton Wanderers voru nálægt því að fara sömu leið og Bury þegar nýir fjárfestar komu til bjargar.

Málið er enn á viðræðustigi og ekki kemur fram hvort að stofnað verði nýtt félag eða rústir félagsins reistar við á komandi mánuðum.

Bury er 134 ára gamalt félag sem staðsett er í úthverfi Manchester-borgar. Félagið hefur tvisvar sinnum orðið enskur bikarmeistari en það var í upphafi síðustu aldar árin 1900 og 1903.