Jóhann Berg Guðmundsson og félagar í Burnley eru að fá vænlegan liðsstyrk fyrir komandi tímabil í ensku úrvalsdeildinni eftir að félagið fékk samþykkt tilboð í Joe Hart og Ben Gibson.

Burnley þarf á markmanni að halda eftir að Nick Pope fór úr axlarlið í leik Burnley gegn Aberdeen á dögunum. Tom Heaton, annar markvörður liðsins, er einnig meiddur og lagði Burnley því fram tilboð í Hart.

Hefur Hart ekki fengið tækifæri hjá Pep Guardiola og Manchester City undanfarin ár og eyddi hann því síðustu tveimur árum hjá Tórínó og West Ham á láni.

Þá er félagið búið að fá samþykkt tólf milljóna punda tilboð í enska miðvörðinn Ben Gibson hjá Middlesbrough. Verða þeir fyrstu leikmennirnir sem Burnley bætir við í sumar þegar vika er eftir af félagsskiptaglugganum.