Talið var líklegt að Solskjær yrði sagt upp störfum sem knattspyrnustjóri eftir slæmt 5-0 tap Manchester United gegn Liverpool á Old Trafford á sunnudaginn. Úrslitin hafa ekki verið að falla með liðinu undanfarið og stuðningsmenn hafa væntanlega átt von á betra gengi liðsins eftir miklar fjárfestingar í leikmannahópnum fyrir tímabilið þar sem stórstjarnan Cristiano Ronaldo sneri meðal annars aftur til Manchesterborgar.

Það er hins vegar skilningur Sky Sports að þrátt fyrir þetta slæma tap gegn Liverpool á sunnudaginn sé aðal áhersla forráðamanna Manchester United að snúa genginu strax við og þeir telja það gefa best að vera ekki að hringla í knattspyrnustjóra stöðunni eins og sakir standa.

Manchester United á erfitt leikjaprógram framundan. Næsti leikur liðsins í ensku úrvalsdeildinni er um helgina gegn Tottenham, liðið mætir síðan Manchester City en í millitíðinni heldur liðið til Ítalíu þar sem andstæðingurinn er Atalanta í Meistaradeild Evrópu. ,,Það er ekkert sem bendir til þess innan félagsins að starf Solskjærs sé í mikilli hættu," er ritað í frétt Sky Sports um málið í morgun.

Ítalski knattspyrnustjórinn Antonio Conte, hafði verið talinn líklegur arftaki Solskjærs í Manchester en heimildir Sky Sports herma að engin samtöl hafi átt sér stað milli Ítalans og forráðamanna Manchester United.

Manchester United situr í 7. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með fjórtán stig þegar níu umferðir hafa verið leiknar.