Evrópska knattspyrnusambandið, UEFA, greindi frá því í dag að búið væri að selja 500 þúsund miða á Evrópumót kvenna sem hefst í næstu viku.

Með því er ljóst að aðsóknin verður að minnsta kosti tvöfalt meiri en í Hollandi árið 2017 þar sem 240 þúsund manns mættu á leikina.

Það er því búið að tvöfalda fyrra metið og enn nokkrir dagar til stefnu.

Evrópumót kvenna fer fram í Englandi og hefst í næstu viku. Alls eru 700 þúsund miðar sem standa til boða.

Uppselt er á fyrstu tvo leiki Íslands á mótinu en það er enn hægt að ná sér í miða á leik Íslands og Frakklands í Rotherham þann 18. júlí næstkomandi.