Sergio Perez segir að hann og liðs­fé­lagi hans hjá Red Bull Ra­cing, tvö­faldi heims­meistarinn Max Ver­stappen geti hagað sér líkt og full­orðnir menn um komandi keppnis­helgi í Abu Dhabi að­eins viku eftir að deilur komu upp hjá liðinu í Brasilíu.

Það andaði köldu á milli Ver­stappen og Perez eftir keppni síðustu helgar en Ver­stappen hefur fengið á sig mikla gagn­rýni fyrir at­hæfi sitt.

Upp­­haf­­lega var Perez, sem er í harðri bar­áttu við Ferrari öku­manninn Charles Leclerc í stiga­­keppni öku­manna, á undan Ver­stappen í keppninni en honum skorti hraða á milli­­hörðum dekkjum og var hann því beðinn um að hleypa Ver­stappen fram úr sér til þess að hægt væri að sjá hvort hann gæti saxað á Alpine öku­manninn Fernando Alon­­so sem var stað­settur einu sæti framar en Perez.

Skila­­boðin sem fylgdu til Perez voru þau að Ver­stappen myndi hleypa honum fram úr sér fyrir lok keppninnar ef hann næði ekki Alon­­so. Ver­stappen er fyrir löngu búinn að tryggja sér heims­­meistara­­titil öku­manna og hefur að engu að keppa en hvert stig skiptir Perez máli í bar­áttunni við Leclerc um 2. sætið.

Í stuttu máli sagt þá náði Ver­stappen ekki að taka fram úr Alon­­so en að sama skapi tók hann það ekki í mál að hleypa Perez fram úr sér undir lok keppninnar. Þegar sú staða rann upp fyrir liðs­­mönnum Red Bull Ra­cing varð allt vit­­laus á sam­­skiptar­ás liðsins.

Í kjöl­far at­burðanna í Brasilíu hefur Red Bull Ra­cing fundað og reynt að hreinsa loftið. Ver­stappen hefur sagst ætla að hjálpa Perez í bar­áttunni við Leclerc ef hann hefur tök á því og nú hefur Perez tjáð sig um fram­tíðina.

,,Við tökumst á við þetta innan liðsins og höldum svo á­fram. Auð­vitað er ég von­svikinn, sér í lagi eftir allt sem ég hef gert en ég er viss um að við getum allir hegðað okkur eins og full­orðnir menn og haldið á­fram sem lið," sagði Perez í sam­tali við Motor­sport.com.

Búið sé að hreinsa loftið.

,,Það verður öðru­vísi staðið að málum í fram­tíðinni, ekki bara í Abu Dhabi heldur til lengri tíma litið. Við munum á­vallt setja hags­muni liðsins framar okkar eigin hags­munum."