Forsætisráðherra Japan staðfesti í dag að Japan og Alþjóða ólympíunefndin hefðu komist að samkomulagi um að fresta Ólympíuleikunum í Tókýó um eitt ár.

Ákvörðunin var tekin innan við sólarhring eftir að Dick Pound, stjórnarmeðlimur í Alþjóða ólympíunefndinni, sagði að leikunum yrði líklegast frestað.

Ástralía og Kanada tilkynntu í gær að þjóðirnar myndu ekki senda íþróttamenn til leiks ef Ólympíuleikarnir færu fram í Tókýó í sumar.

Það verða því engir Ólympíuleikar þetta árið né Ólympíuleikar fatlaðra en þeir fara fram á næsta ári. Leikarnir munu áfram bera nafnið Tókýó 2020.

Þetta er í fyrsta sinn sem Ólympíuleikunum er frestað en þrisvar hefur þurft að grípa til þess að aflýsa leikunum vegna fyrri heimsstyrjaldarinnar (1916) og seinni heimstyrjaldarinnar (1940 og 1944).

Óvíst er hvenær leikarnir hefjist en samkvæmt samkomulagi japanskra stjórnvalda og ólympíunefndarinnar þurfa þeir að fara fram að sumri til.