Búið er að fresta stór­leik Manchester United og Liver­pool sem átti að hefjast klukkan 15:30 að ís­lenskum tíma. Mikil mót­mæli fóru fram fyrir utan Old Traf­ford, heima­völl United, fyrir leikinn og þustu stuðnings­menn liðsins meðal annars inn á völlinn.

Stuðnings­menn United eru ó­á­nægðir með eignar­hald Glazer-fjöl­skyldunnar á Manchester United og hafa þeir kallað eftir því að þeir selji fé­lagið. Mót­mælendur komust inn á grasið á Old Traf­ford þar sem þeir kveiktu meðal annars á blysum. Nokkur hundruð manns tóku þátt í mót­mælunum.

Ó­víst var hvort leiknum yrði seinkað eða hrein­lega frestað en Sky Sports greinir frá því að leikurinn fari ekki fram í dag og ný dag­setning verði fundin fyrir leikinn.

Leikir Manchester United og Liver­pool eru jafnan þeir stærstu í enska boltanum á hverju tíma­bili, enda ná­granna­slagur tveggja af sigur­sælustu liðum enskrar knatt­spyrnu. United er sem stendur í 2. Sæti ensku úr­vals­deildarinnar og nokkuð öruggt með sæti í Meistara­deildinni að ári. Liver­pool er aftur á móti í 6. sæti og í mikilli bar­áttu um að komast í Meistara­deildina.