Búið er að fresta kappakstrinum í Kína sem átti að fara fram í apríl vegna útbreiðslu kórónaveirunnar en stjórn Formúlu 1 staðfesti þetta í dag.

Stjórnvöld í Sjanghaí óskuðu eftir því á dögunum að kappakstrinum yrði frestað á meðan kórónaveiran gengur yfir landið. Óvíst er hvort að keppnin fari fram síðar á árinu.

Frá því að kórónaveiran kom fyrst upp hafa 45 þúsund manns smitast og rúmlega ellefu hundrað látist en veiran kom fyrst fram í kínversku borginni Wuhan í Hubei-héraði.

Fyrir vikið mun mánuður líða á milli kappaksturins í Víetnam og í Hollandi ef kappaksturinn í Hanoi fer fram þann 5. apríl næstkomandi.

Stjórnarmeðlimir Formúlu 1 hafa áhyggjur af því að kappaksturinn fari fram í Víetnam þar sem fimmtán hafa greinst með kórónaveiruna.

Kappakstrinum í Víetnam var bætt við fyrir þetta tímabil og átti þetta því að vera eldskírn Víetnam í Formúlu 1.

Búið er að fresta HM í frjálsum innandyra, Formúlu E kappakstri, knattspyrnuleikjum og fyrsta móti á heimsmótaröðinni í badminton sem áttu að fara fram í Kína á næstu vikum.