„Þetta er ólýsanlegt, mann er búið að dreyma um þetta í fjögur ár síðan maður kom inn í liðið og loksins rann þetta upp,“ sagði Elvar Örn Jónsson sigurreifur i leikslok.

„Liðsheildin var frábær, varnarleikurinn hefur verið veikleiki okkar öll þessi ár en í úrslitakeppninni small þetta. Sveppi var ótrúlegur í vörninni og stoppaði allt. Fyrir aftan hann var Sölvi að taka fjölmarga bolta í markinu og var frábær.“

Elvar var valinn besti leikmaður úrslitakeppninnar eftir frábæran leik.

„Ég vissi að þetta væri minn síðasti leikur hérna á Selfossi í langan tíma og það gaf mér auka hvatningu í að skilja allt eftir á gólfinu. Ég vildi ekki fara á Ásvelli aftur,“ sagði Elvar sem fer brosandi út í atvinnumennskuna.

„Algjörlega, ég er mjög spenntur fyrir komandi tímum og spenntur fyrir því að vinna með Patreki aftur.“