Forráðamenn belgíska knattspyrnufélagsins Roeselare hafa bjargað félaginu frá gjaldþroti en skuld félagsins við veitingastað varð til þess að farið var fram á gjaldþrot hjá félaginu.

Stjórnarskipti urðu hjá félaginu síðastliðið vor en í kjölfar þess var Arnar Grétarsson ráðinn þjálfari karlaliðs félagsins sem leikur í belgísku B-deildinni.

Nýir eigendur Roeselare segja að þeim hafi ekki verið kunnugt um téða skuld við veitingastaðinn en þegar þeim var greint frá stöðu mála hafi skuldin umsvifalaust verið greidd.

Af þeim sökum hefur gjaldþrotabeiðnin verið dregin til baka og félagið hólpið í bili hið minnsta. Roeselare hefur tvö stig eftir fimm umferðir en liðið mætir Excelsior Virton í næstu umferð deildarinnar á sunnudaginn kemur.