Buffon var sendur í ótímabæra sturtu með rauðu spjaldi í kjölfar þess að hann mótmælti kröftulega þeirri ákvörðun Michael Oliver, dómara leiksins, að dæma vítaspyrnu á Juventus í uppbótartíma leiksins.

Buffon sem hefur gefið það út að hann muni leggja hanskana á hilluna í lok yfirstandandi leiktíðar hefur þrisvar sinnum farið alla leið í úrslit Meistaradeildarinnar, en aldrei tekist að fagna Meistaradeildartitli.

Þegar Oliver benti á vítapunktinn sá hann fram á það síðasta tækifæri hans til þess að vinna sigur í Meistaradeildinni var að renna honum úr greipum og tilfinningarnar báru fegurðina ofurliði.

Síðasta árið viss vonbrigði

Buffon hafði líklega séð fyrir sér að komast annað hvort alla leið í Meistaradeild Evrópu og fagna sigri í þeirri keppni í fyrsta skipti eða kveðja ítalska karlalandsliðið í knattspyrnu með sómakenndri frammistöðu á heimsmeistaramótinu sem fram fer í Rússlandi í sumar á lokaári sínu sem leikmaður.

Nú er ljóst að hvorugt mun ganga upp þar sem Cristiano Ronaldo sparkaði Juventus úr leik með því að skora úr vítaspyrnunni sem dæmd var og ítalska landsliðið er ekki á leið á heimsmeistaramótið eftir sárgrætilegt tap gegn Svíum í umspili um sæti í lokakeppni heimsmeistaramótsins.

Huggun harmi gegn hjá Buffon

Buffon getur reyndar huggað sig við það að Juventus hefur fjögurra stiga forskot á Napoli þegar sjö umferðir eru eftir af ítölsku A-deildinni. Þá er Juventus einnig komið alla leið í ítalska bikarnum þar sem liðið mætir hinum sofandi risa AC Milan í úrslitaleik.

Buffon gæti því bætt sínum ellefta meistaratitli og fimmta bikarmeistaratitli í titlasafn sitt áður en hann sest í helgan stein sem knattspyrnumaður. Það ætti að ylja honum í ellinni þegar reiði hans í garð Oliver er runnin af honum.