Akureyringurinn Sóley Margrét Jónsdóttir, sem keppir fyrir hönd Breiðabliks, náði að fylgja eftir góðum árangri undanfarinna ára þegar hún setti fimm ný Íslandsmet, sex unglingamet og tvö Norðurlandamet á Reykjavíkurleikunum í síðasta mánuði. Þetta var aðeins annað mót Sóleyjar að undanförnu en kórónaveirufaraldurinn hefur sett strik í reikninginn í kraftlyftingum og hefur komið í veg fyrir hefðbundið mótafyrirkomulag í greininni líkt og öðrum greinum.

„Þetta var annað mótið sem ég gat tekið þátt í á löngum tíma en í hefðbundnu árferði hefðu þetta líklegast verið um tíu mót. Ég átti að vera búin að fara að minnsta kosti þrisvar utan að keppa, en í staðinn hef ég bara einbeitt mér að æfingum og bætingum. Núna stendur yfir rólegt tímabil en svo fer allt á fullt fyrir EM í bekkpressu í Rússlandi í sumar, ef mótið fær að fara fram. Það eru mörg mót á dagskránni og flest þeirra í útlöndum en það á eftir að koma í ljós hvort þau fái að fara fram.“

Á dagskránni hjá Sóleyju á þessu ári stendur til að taka þátt í áðurnefndu EM í bekkpressu ásamt heimsmeistaramóti U23 í Rúmeníu og heimsmeistaramóti fullorðinna í Noregi undir lok ársins. Það er því afar spennandi ár fram undan hjá kraftlyftingakonunni ef faraldurinn fer að lægja.

Aðspurð hvort að árangurinn á Reykjavíkurleikunum hafi farið fram úr væntingum, var hin metnaðarfulla Sóley ekki á því, enda voru keppnisaðstæður í Sporthúsinu þann daginn ekki upp á það besta.

„Í aðdraganda mótsins var helsta markmiðið hjá mér að bæta hnébeygjumetið sem tókst. Mér tókst að bæta fyrra metið um 42 kíló. Þetta mót gekk samt ekkert allt eins og í sögu, það var fullkalt inni sem gerði manni erfitt fyrir, “ segir Sóley, sem lenti í óheppilegu atviki á lokadegi mótsins.

„Ég lenti í því óheppilega atviki að brjóta tvær tær í upphitun fyrir réttstöðulyftuna sem var síðasta grein mótsins. Það setti ákveðið strik í reikninginn,“ segir hún hlæjandi. „Ég reyndi að gleyma sársaukanum og fór ekkert úr skónum þar til mótið var yfirstaðið. Með því tókst mér að klára mótið,“ segir Sóley, sem bætti Íslandsmet í réttstöðulyftu í flokki U23 þrátt fyrir brotin.

Stutt er síðan Sóley var kosin kraftlyftingakona ársins 2020 en hún keppir bæði í unglinga- og fullorðinsflokki. Hún varð Evrópumeistari þrjú ár í röð frá 2017 til 2019 í flokki U18 og heimsmeistari í sama flokki árið 2019 og er því óhætt að segja að framtíðin sé björt hjá þessari öflugu kraftlyftingakonu. Hún tók undir að það væri viðurkenning en á sama tíma hvatning að fá nafnbótina Kraftlyftingakona ársins undanfarin tvö ár.

„Algjörlega. Það var mikil hvatning að vera kosin Kraftlyftingakona ársins og hvetur mann áfram.“

Sóley, sem vinnur sem sjúkraliði í heimahjúkrun hjá Reykjavíkurborg, ákvað á síðasta ári að flytja til Reykjavíkur og keppir þessa dagana fyrir hönd Breiðabliks. Aðspurð sagðist hún vera ánægð með að hafa tekið þetta skref.

„Ég er mjög ánægð með þessa ákvörðun. Aðstæðurnar eru frábærar, gott umhverfi og góður félagsskapur. Fyrir vikið er þetta mjög hvetjandi. Eina eftirsjáin er að fjölskyldan varð eftir fyrir norðan og það er smá söknuður eftir þeim.“