„Þetta er mjög spennandi, ég hef ekki komið þangað áður en er bara þakklát fyrir að fá mót á þessum tímapunkti. Ég held að þetta sé bara í annað sinn sem alþjóðlegt kvennamót í íþróttum fer fram í Sádi-Arabíu,“ segir Guðrún Brá Björgvinsdóttir, atvinnukylfingur úr GK og Íslandsmeistari síðustu þriggja ára, spurð út í næstu tvö mót á dagskránni hjá henni. Hún er á leiðinni til Jeddah í Sádi-Arabíu á næstu dögum þar sem hún mun taka þátt í fyrsta alþjóðlega kvennagolfmótinu sem haldið hefur verið í landinu. Mótið er hluti af Evrópumótaröðinni, næst sterkustu mótaröð heims.

„Ég held að það séu flestar bara mjög spenntar að spila. Þegar það eru engin mót erum við eiginlega atvinnulausar svo að þetta er kærkomin viðbót við mótaskránna í lok árs.“

Guðrún tekur þátt í tveimur mótum. Fyrsta er einstaklingsmót en seinna mótið er liðakeppni með nýstárlegu sniði.

„Seinna mótið er mjög skemmtilega sett upp með þremur áhugakylfingum og einum áhugamanni. Það er fyrirliði sem velur meðspilara, ekkert ósvipað því sem þekkist í nýliðavali í bandarískum íþróttum. Svo er einum spilara af handahófi bætt við liðið og fjórði aðilinn er áhugakylfingur frá Sádi-Arabíu.“

Guðrún Brá er að ljúka fyrsta ári sínu á mótaröðinni og hefur því kynnst tímunum tvennum vegna áhrifa kórónaveirufaraldursins. „Það má svo sannarlega segja að þetta hafi verið rússíbani,“ segir Guðrún, aðspurð út í eftirminnilegt fyrsta ár á mótaröðinni. „Maður er búin að þurfa að vera á tánum allt tímabilið og vera stöðugt tilbúinn en síðan hefur lítið ræst úr því. Það var ótrúlega skrýtið að spila á þessum mótum sem ég tók þátt í þetta sumarið vegna allra þeirra reglna sem þurfti að fara eftir.“

Mótaröðin ákvað fyrr á árinu að allir leikmenn mótaraðarinnar myndu halda keppnisrétti sínum á næsta ári. Það þurfti því ekki að hafa áhyggjur af því að kórónaveirufaraldurinn myndi kosta kylfinga þátttökuréttinn.

„Það er búið að tilkynna að það verða engin úrtökumót í ár og allir halda sömu stöðu og í byrjun á þessu ári. Það var gott að vita af því í vor og það létti svolítið á manni og setti marga kylfinga í betri stöðu. Það voru margir sem gátu ekki eða vildu ekki ferðast á mót á þessum tímum og það væri mjög ósanngjarnt ef það ætti að koma niður á þeim,“ segir Guðrún sem fer því pressulaus inn í mót sem er með ríkulegt verðlaunafé.

„Það er í raun engin pressa að komast upp stigalistann en ég er líka að horfa í átt að heimslistanum, að komast ofar þar,“ segir Guðrún sem er á Ólympíulista ÍSÍ yfir þá einstaklinga sem eru að reyna að komast að á Ólympíuleikunum í Tókýó. „Það er auðvitað einn draumur sem er í boði að komast á Ólympíuleikana. Maður verður að nýta hvert tækifæri til að spila og vonast til að komast ofar á listanum.“

Æfingasvæðum á íslenskum golfvöllum var lokað í haust og hefur Guðrún því þurft að vera frumleg í æfingum til að viðhalda taktinum fyrir mótin í Sádi-Arabíu.

„Þetta hefur verið fjölbreytilegt. Ég er með aðstöðu heima til að æfa það helsta en það nær bara upp að vissu marki. Á þessum tímum þarf maður að nota ímyndunaraflið og gera annað en bara að slá. Ég er búin að skoða völlinn á netinu og styrktaræfingar.“