Stjarnan er komin áfram í einvígi sínu við eistneska liðið Levadia í fyrstu umferð í forkeppni Evrópudeildarinnar í knattspyrnu karla en þetta varð ljóst eftir 3-2 tap liðsins í seinni leik liðanna ytra í kvöld.

Úrslitin réðust eftir framlenginu en þar var Brynjar Gauti Guðjónsson hetja Stjörnunnar. Þorsteinn Már Ragnarsson skoraði mark Stjörnunnar í venjulegum leiktíma í Eistlandi í kvöld.

Þorsteinn Már skoraði einnig bæði mörk Stjörnunnar í fyrri leik liðanna þar sem Garðabæjarliðið fór með 2-1 sigur af hólmi.

Evgeni Osipov kom hins vegar eistneska liðinu tvisvar sinnum yfir í leiknum og staðan var 2-1 fyrir Levadia eftir venjulegan leiktíma. Viðureignin fór þar af leiðandi samanlagt 3-3 eftir venjulegan leiktíma og framlengja þurfti leikinn.

Þar var það Dmitri Kruglov sem kom Levadia 3-1 yfir og allt leit út fyrir að Stjarnan væri að falla úr leik.

Brynjar Gauti Guðjónsson kom hins vegar Stjörnuliðinu til bjargar með marki sínu á lokaandartökum seinni hluta framlengingarinnar. Stjarnan mætir spænska liðinu Espanyol í annarri umferðinni.