Brynjar Hlöðversson hefur gert samning við knattspyrnudeild Leiknis Reykjavíkur um að leika með liðinu næstu tvö keppnistímabilin. Brynjar sem er uppalinn hjá Leikni snýr aftur til félagins eftir að hafa leikið með færeyska liðinu HB síðustu tvær leiktíðirnar.

Brynjar varð færeyskur meistari á fyrra árinu sem hann spilaði þar í landi og svo bikarmeistari í haust. Hann hefur leikið með Leikni allan sinn feril hér á landi.

„Það er mikið fagnaðarefni fyrir félagið og hverfið í heild að endurheimta Brynjar. Hann kemur með góða reynslu inn í ungan og spennandi leikmannahóp," segir Oscar Clausen, formaður Leiknis, um komu Brynjars á heimasíðu félagsins.

Félagið birtir skemmtilega stuttmynd um komu miðvallarleikmannsins öfluga á samfélagsmiðlum sínum sem sjá má hér að neðan.