Þessi brýning HSÍ kemur í kjölfar atviks sem átti sér stað í leik Hauka og ÍBV í Olís deild karla þann 15. nóvember síðastliðinn.

Í leiknum fékk leikmaður Hauka sína þriðju tveggja mínútna brottvísun og var því rekinn af velli þegar rétt rúm mínúta var til leiksloka.

,,Þegar 1 sekúnda var eftir var eftir af leiknum tók þjálfari ÍBV leikhlé og hljóp þá framangreindur leikmaður Hauka inn á völlinn til að fagna," segir í úrskurði aganefndar HSÍ.

Samkvæmt leikreglum IHF, skulu útilokaðir leikmenn yfirgefa völlinn og skiptisvæði strax og gildir útilokun þar til leiktíma er lokið. Enn fremur segir í reglunum að ekki er mögulegt að ákvarða frekari refsingar í leiknum gagnvart viðkomandi leikmanni og á það einnig við þegar útilokaður leikmaður fer inn á völlinn.

,,Af knappri málsatvikalýsingu í skýrslu eftirlitsdómarans að dæma hljóp hinn útilokaði leikmaður inn á völlinn þegar vallarklukkan gall vegna leikhlés ÍBV og leikmaður stóð í þeirri trú að leiktíma var lokið," segir í úrskurði aganefndar HSÍ sem sér ekki tilefni til þess að refsa leikmanninum sérstaklega fyrir þetta.

Aganefndin telur hins vegar að standa hefði mátt betur að framkvæmd leiksins. ,,Brýnt er fyrir fyrirsvarsmönnum liða og ábyrgðarmönnum leikja að leikreglum IHF sé fylgt við útilokun leikmanna og umgjörð leikja almennt."