Það var heldur brúnaþungur Wayne Rooney, fyrrum leikmaður Manchester United og núverandi knattspyrnustjóri Derby County sem mætti í dómsal í dag með eiginkonu sinni Coleen Rooney fyrir fyrsta dag í meiðyrðamáli Rebekuh Vardy gegn Coleen eftir áralöng átök þeirra.
Deilur kvennanna tveggja hafa staðið yfir í langan tíma en Rebekah ákvað að fara með málið fyrir dómstóla eftir að Coleen ásakaði hana um að leka upplýsingum um einkalíf hennar til breska slúðurmiðilsins The Sun. Málið hefur teygt anga sína inn í umhverfi enska boltans en Rebekah er eiginkona Jamie Vardy, framherja enska úrvalsdeildarfélagsins Leicester City.
Coleen greindi opinberlega frá ásökunum sínum í Twitterfærslu í október árið 2019 þar sem hún sagðist hafa haft grun um að Rebekah hafi verið að leka upplýsingum um einkalíf sitt til The Sun.
Rooney fylgdist náið með Instagram reikningi sínum og setti inn efni sem aðeins vinir og vandamenn fengu aðgang að, þar með talið Rebekah Vardy. Hún segist smám saman hafa fækkað í þeim hópi sem sá efnið sem hún setti inn þar til að Rebekah Vardy stóð ein eftir.
Hugh Tomlinson, verjandi Vardy í málinu sagði við upphaf málsins í dómsal í dag að skjólstæðingur sinn hefði ekki lekið upplýsingum um einkalíf Rooney í fjölmiðla, málið hafi skaðað hennar orðspor.
Verjandi Rooney, David Sherborne, segir að málið sem tekið sé fyrir snúist í grunninn um svik.
,,Það sem dómstóllinn þarf að komast að núna er hvort að Coleen Rooney hafi verið svikin af Rebekuh Vardy vegna þess að hún vissi að Caroline Watt, almannatengill sinn, væri að leka upplýsingum um einkalíf Rooney í fjölmiðla, upplýsingar sem hún hafði eftir Vardy. Eða hvort að Vardy hafi verið svikin af Caroline Watt vegna þess að hún hafi lekið þessum upplýsingum án vitneskju Vardy og hefði með því logið að henni allan þennan tíma."
